Fyrsta tjaldútilega ársins – 3. janúar 2020
„Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra bendir fólki á að fylgjast með veðurspám fyrir morgundaginn, suðaustan hvassviðri eða stormur með vindhraða á bilinu 18-25 m/sek og mjög hvössum vindstrengjum við fjöll sem staðbundið geta farið yfir 40 m/sek einkum á fjallvegum... Búast má við talsverðri snjókomu með skafrenningi og lélegu skyggni... Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám og fresta ferðalögum framyfir gildistíma viðvörunarinnar”.
Þannig hljóðaði fjögurfréttir RÚV föstudaginn 3. janúar. Um það leyti ók ég út úr bænum í fyrstu tjaldútilegu ársins með Snjódrífunum. Markmiðið var að æfa hvernig ferðast er um á utanbrautar gönguskíðum með sleða í eftirdragi sem geymir allan búnað og vistir, s.s. tjöld, prímus, svefnpoka, dýnur, mat og annan búnað. „Hvað ertu nú búin að koma þér út í?” spurði maðurinn minn sem fannst ekkert sérlega góð hugmynd að gista í tjaldi þegar komin væri appelsínugulri viðvörun. En þegar maður undirbýr sig fyrir leiðangur sem felst í að þvera Vatnajökul lengstu leið frá vestri til austurs á 10 dögum þá verður maður að æfa sig í að kljást við allskonar veður. Líka þetta appelsínugula.
Í jöklaleiðöngrum er mikilvægt að vera rétt útbúin, þ.e. í hlýjum og skjólgóðum fatnaði, með góðan svefnpoka og dýnu sem þola mikinn kulda. En það sem ég lærði í ferðinni var að það er ekki síður mikilvægt að æfa sig í að tjalda á bólakafi í snjó í myrkri og kulda og fumlaus handtök í að tryggja allan búnað fyrir nóttina. Þá er nauðsynlegt að kunna að nota prímus með bensíni inni í tjaldinu án þess að brenna tjaldið og sjálfa sig með. Svo ekki sé minnst á alla „litlu“ hlutina eins og að læra að pissa í tjaldinu með hjálp frussu og flösku innan um nýjar bestu vinkonur sínar.
Það er merkilegt hvað lífið verður dásamlega einfalt þegar allt sem maður þarf er á litlum sleða og aðalverkefnið er að bræða nógu mikinn snjó til að setja á hitabrúsa, bæði til að halda á sér hita og drekka – og blanda heitu vatni saman við þurrmatinn. Vatnið verður lífæðin. En svo er það þetta mannlega. Helsta áskorun flestra í svona aðstæðum er hausinn, viðbrögð okkar sjálfra við því sem kemur upp á, við kuldanum, bleytunni og hvítu víðáttunni sem getur á stundum valdið innilokunarkennd. Þá er gott að hugsa um Íslendinga fyrr á öldum og baráttu þeirra við náttúruöflin fyrir daga Gore-tex og dúnúlpunnar. Fyrir daga bensínprímusa og jöklabrodda. Ef þau gátu þetta þá get ég þetta líka.
Anna Sigríður Arnardóttir, Snjódrífa :)