Paradís á Hellisheiði

Hér segir frá ferð nokkurra kvenna í vondu veðri í byrjun febrúar upp á Hellisheiði. Á heiðinni fundu þær visku í textum Ingó veðurguðs, hugsuðu um tvíyrt örnefni, helltu upp á kaffi í anda William Lord Watts landkönnuðar sem fyrstur fór yfir Vatnajökul árið 1875, fundu skála aldinna skæruliða og fundu að aðeins þarf að fara um hálftíma leið til að komast í paradís. Ferðasaga um undur Hellisheiðar eins Karen Kjartansdóttir og Soffía Sigurgeirsdóttir muna þetta.

Af hverju gerir maður sér þetta?

Klukkan var orðin sex að kvöldi á föstudegi í byrjun febrúar. Vindurinn lamdi gluggana og börnin hjúfruðu sig undir teppi og töluðu um kósíkvöld. Mamman var þó ekki alveg í sambandi enda í óðaönn að útvega púlku (sleði fyrir farangur á fjöllum) vegna vetrarútilegu sem stefnt var að leggja í um kvöldið. Á fréttamiðlum mátti sjá tilkynningar um gular og appelsínugular viðvaranir út um allt land en þeir sem þekkja Brynhildi Ólafsdóttur, leiðangursstjóra þessarar ferðar, vita að hún er ekki vön að hætta við ferðir vegna veðurs, heldur leggst hún þeim mun betur yfir veðurspárnar og finnur nýjar leiðir út frá skýjahuluspám og öðrum þáttum sem hljóma eins og galdraþulur í eyru flestra. Brynhildur breytir bara áætlunum í takt við aðstæður, lætur fólk ganga um nætur ef það hentar betur og finnur upp á ýmislegu harðræði í hverri ferð, sem hún kynnir þó ávallt sem eðlilegar ráðstafanir. Púlkuna fékk ég þar sem Flugbjörgunarsveitin hætti við sína ferð um kvöldið. Við náum seint að kyrkja púkann sem hvíslar að manni orðum um að líklega sé þetta útivistarbrölt vitleysa, hóglífi sé málið. Púkinn spyr ávallt lymskulega hvers vegna í ósköpunum fólk panti ekki bara pizzu á föstudagskvöldi í stað þess að pakka og rjúka til fjalla í myrkri og slyddu klukkan sjö að kvöld. Hvaða rugl var þetta eiginlega og vorum við að fara hírast í tjaldi alla helgina, af hverju?

Lagt af stað inn í sorta og kafaldsbyl heiðarinnar

Förinni var ekki heitið langt af varúðarástæðum, við tjaldsambýlingarnir Karen og Soffía, brunuðum upp í Bláfjöll og hittum hópinn á bílastæðinu við Ullar skálann. Að þessu sinni voru átta Snjódrífur auk Róberts Marshall, mannsins hennar Brynku okkar, þar sem til stóð að taka upp einn „Úti“ þátt. Við klæddum okkur í góðu 66°Norður skelina okkar, settum á okkur skíðagleraugun og höfuðljósið. Tókum dótið út úr bílnum og festum á okkur Fisher utanbrautarskíðin okkar, börðumst við að glata púlkunum okkar ekki út í vindinn á meðan við komum farangrinum okkar á þær. Þá kom í ljós að í flýtinum höfðum gleymt gashylki en svo heppnar vorum við að hafa fengið Huldu, þriðju konuna í tjaldið með okkur, sem hafði tekið auka gas með sér. Við lögðum því út í sortann og fjúkið á skíðunum. Hellisheiðin yrði könnuð þessa helgi þótt lítið sæist af henni í myrkrinu og kafaldsbyl.

Við gengum áfram í blautum snjó inn í kvöldið, þurftum þó að setja skinn á skíðin vegna klaka í brekkunni í námunda við Kerlingardal. Í kringum miðnætti staðnæmdumst við einhversstaðar í Kerlingardal. Heiti staðarins það þótti okkur Snjódrífunum á fjöllum vitanlega stórskemmtilegt og slógu upp tjaldbúðum í bylnum og grófu snjóveggi til að skýla tjöldum fyrir vindi. 

Sofið í eldingaveðri og jarðhræringum án samviskubits

Í tjaldleiðöngrum skiptir fólk með sér verkum. Allt þarf að vera einfalt og skýrt meðal þeirra sem deila tjaldi og óreiða eða lausung er ekki liðin. Soffía sá um inniverkin og snjóbræðslu þetta kvöldið en Karen og Hulda hömuðumst í snjómokstri og frágangi fyrir utan. Þegar inn var komið hafði Soffía búið um og var ég svo stálheppin að lenda í miðjunni sem er mikill kostur þegar von er á kaldri nótt. Ég hafði svo fengið lánaðan forláta Ferrino svefnpoka frá Leifi Dam, félaga mínum í útivistarbúðinni GG-sport og voru athugasemdir gerðar við að ég væri eins og prinsessa í þessu tjaldi á meðan aðrir væru að gera sér að góðu að setja saman tvo svefnpoka til að halda á sér hita. Samviskan beit mig ekki heldur sofnaði ég þeim mun værara þótt þrumur og eldingar hefðu bæst í leik náttúruaflanna. Það hvein tjaldinu í vindinum og framundan var hávaðasöm nótt með þrumum og eldingum. Soffía hrökk svo einnig við vegna jarðskjálfa en meðan hinar tvær sváfu vært og sögðu umbyltingar jarðarinnar leið hennar til að vagga þeim í svefn.

Þess vegna gerir maður þetta

Um morguninn vöknuðum við svo í logni og við vísi að stöðuvatni sem var að myndast í krapanum. Það var himinblátt og ævintýralegt. Öll löngun til að liggja í sófa við sjónvarp var horfin. Við pökkuðum og héldum af stað lengra út á heiðina. Veðrið var bjart, náttúrufegurðin yfirþyrmandi og spaugilegt til þess að hugsa að á Íslandi þarf ekki að fara lengra en örfáa kílómetra út fyrir byggð til að komast í ægifagra náttúru. Höfuðborgarsvæðið er ekki síst vel í sveit sett með sína dularfullu Hellisheiði þar sem úir og grúir af merkilegum náttúruperlum, þjóðleiðum og minjum um kynslóðirnar sem byggðu landið á undan okkur. Við snæddum nesti við Fjallið eina. 

Fjallið eina sem ekki er fjall og heldur ekki eitt

Já. Fjallið eina, þetta örnefni þarf að ræða. Nafnið á fjallinu tilheyrir í raun ekki aðeins einu fjalli eins og ætla mætti heldur á þremur fjöllum - Ef fjöll skyldi kalla því öll eru þau svo  lítil að þau geta vart talist fjöll og eru alls ekki ein. 

Á Vísindavefnum er farið yfir þetta mál og segir þar að þessi meintu fjöll séu eftirfarandi, það sem talið er upp númer tvö er Fjallið eina þar sem við tókum nestispásuna. 

  • Móbergshnjúkur (223 m) skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi í Gullbringusýslu, fyrir sunnan eða suðvestan Óbrinnishólabruna 

  • Ávöl alda (401 m) í Árnessýslu, austan undir Bláfjöllum í Reykjanesfjallgarði. Þór Vigfússon lýsir því svo í Árbókinni: „Fjallið eina (401 m) kúrir í móbergi sínu í nokkurri lægð þannig að það blasir ekki við víða. Er mun meiri feimnisbragur yfir því en hinu uppsperrta Geitafelli.“ 

  • Lágt fell (210 m) í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu. Því er þannig lýst í örnefnaskrá: „Vestan við Höskuldarvelli er norðurendi á frekar lágu felli, sem er mjög langt og mjótt og liggur til suðurs. Heitir það Oddafell, stundum nefnt Fjallið eina.“

Þetta eru víst kölluð tvíyrt örnefni og hliðstætt nafn við Fjallið eina er Heiðin há sem einmitt er líka að finna í Bláfjöllum. Í Færeyjum og á Orkneyjum má einnig finna örnefni sem minna á þessi en við reynum að stilla okkur um frekari fræðslu í bili og höldum áfram með ferðasöguna. 

Guð og Ingó veðurguð

Í staldrinu við Fjallið eina kviknaði umræða um guðstrú. Ekki hófust af því heimspekilegar umræður um tilurð mannsins og tilgang lífsins heldur Ingó veðurguð og mikilvægi þess að hafa Veðurguðinn með sér í liði í lífinu. Hópurinn byrjaði að söngla lagið Draumaland með söngvaskáldinu frá Selfossi sem á bara svo prýðilega við þankagang útivistafólks. Já, hvernig hefði grunað að danssmellur með geggjuðu teknóbíti yrði einkennislag þessarar menningarlegu ferðar um undur Hellisheiðar.

Skáli minninganna

Eftir snæðinginn héldum við áfram með fram eystri hlíðum Bláfjalla, eða þar til við komum að Ólafsskarði þar sem við blasti niðurníddur skáli sem þó virtist úr einhverju ævintýri, eða kannski frekar draugasögu. Við þekktum ekki sögu skálans þá en allt vakti hjá okkur löngun til að vita meira. Handverkið var áberandi fallegt þótt skálinn hefði staðið án umhirðu í um hálfa öld. Inn í honum stóð arinn sem í var greyptur skjöldur frá ungmennafélaginu Ármanni og rústir koja sem þreytt skíðafólk hefur eflaust sofið vel í áður. 

Ef við myndum gefa skálanum rödd og sál, líkt og tíðkast að gefa dauðum hlutum í ævintýrum H.S. Andersen, teldum við augljóst að skálinn lætur sig dreyma um liðnar gleðistundir. Hann bíður þess þó þolinmóður, en með sorg í hjartanu sem eitt sinn brann í blíður arinneldur, að áhugasamt útivistarfólk sjái tækifærin sem í honum og svæðinu felast. 

Við höfum ætlað að tjalda inn í Jósepsdal eða Draumadölum en færðin þangað var svo torfær með púlkurnar að við breyttum áætlun og fundum náttstað við Eldborgir við fell sem mér hefur sýnst á kortum að heiti Lambafell. Kvöldið var kyrrt og það tók að kyngja niður snjó svo við þurftum að gæta þess að ekki legði of mikinn snjó á tjaldið okkar. 

Helsta íþrótt íslenskra kvenna - uppáhelling 

Um morguninn fórum við snemma á fætur til að berja fegurð heiðarinnar augum, og svo var okkur mjög mál að pissa. Við skínandi tungl og í mjúkum nýföllnum snjó löguðum við kaffi í franskri pressukönnu sem við keyptum í GG-sport ásamt helstu nauðþurftum fyrir ferðina. Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að vanda til við uppáhellingar í harðræðisferðum. Við Karen og Soffía erum þó ekki á sama máli og vitnum ávallt, máli okkar til stuðnings, í bókina Norður yfir Vatnajökul eftir Englendinginn William Lord Watts, sem árið 1875 komst fyrstur manna yfir Vatnajökul. Í ferðasögu hans kemur skýrt fram að gott kaffi er sérgrein Íslendinga og sómi hverrar íslenskrar konu, eða eins og segir í ferðabókinni góðu á síðu 60: 

„Sú íþrótt, að búa til gott kaffi, er ein höfuðdyggð íslenskra kvenna, og væri betur að annarra þjóða konur legðu meiri stund á það en almennt gerist. Góður kaffisopi er jafnan á á boðstólum, þótt á kotbýli sé, og í rauninni má það furðulegt heita hversu, gott kaffi Íslendingar búa til, því að kaffið, sem kaupmenn hafa á boðstólum, er aldrei af bestu tegund; það er aðallega Java-kaffi. Aðalgaldurinn í þessu efni er eflaust sá að kaffið er brennt heima, brennt alveg mátulega og síðan meðhöndlað á einhvern sérstakan hátt, sem einungis löng reynsla og æfing fær kennt. Þá spillir það ekki þessum þjóðlega kjördrykk, að oftast fylgir honum vænn skammtur af hnausþykkum rjóma.“

Okkur myndi hreinlega líða eins og þjóðníðingum ef við héldum ekki þessari kaffihefð í heiðri. Róbert Marshall, félagi okkar, sem hafði fengið að koma með í kvennaferðina með Brynhildi konu sinni, var að safna efni fyrir þáttinn Úti sem sýndur er á RÚV. Við vorum nývaknaðar og úldnar og ég og Soffía höfum satt best að segja talsverðar áhyggjur af því hvernig við munum birtast á skjánum. Kyrrðin og fegurðin gerði okkur samt kærulausar um slíka hluti og við blöðruðum í myndavélina eins og hégómi væri ekki til. 

Veðurguð rífur þögn fjallanna með danslagi

Skyndilega var kyrðin rofin með dúndrandi danslagi í litlum hátalara. Þær Anna Sigga og Guðrún Harpa gægðust út með tónunum syngjandi með Ingó Veðurguði: 

Höldum af stað inn í draumaland 

á bökkum Ölfusár, sunnan Ingólfsfjalls

þú keyrir þjóðveg 1 út úr Reykjavik og hálftíma

seinna ertu í paradís, paradís, sumarfrí

það er alltaf sumar á Selfossi, Selfossi, Selfossi

það er alltaf sumar á Selfossi

það er alltaf sumar á Selfossi

meira að segja að vetri til


Þvílík innkoma í þennan fagra dag. Við tókum vitanlega undir og sungum hástöfum í fegurðinni og tunglskininu. 

Þegar haldið var af stað eftir samantekt byrjuðum við svo að æfa flóknari hluta textans og bættum við með teknóbíti. 

Stefnum á Litlu kaffistofuna 

Já, við erum ekki frá því að þetta sé besta lag sem samið hefur verið á íslenska tungu. Við sungum það á börnum fagurra eldgíga sem þarna leynast, rétt við þjóðveginn, í braut hraunrennslis sem myndar einskonar undraleið um heiðina. Þessari perlu sem við á Suðvesturhorninu vitum allt of lítið af.

För okkar framundan þennan morguninn var þó ekki í átt að paradís heldur að Litlu kaffistofunni. Sú leið var þrautin þyngri. Horfi maður á kort virðist hún aðeins örskot frá Eldborgunum fögru eða svo sýnist fólki sem fer vanalega allra sinna ferð í bíl. Fólk á göngu, með farangur og klifjar verður að taka mið af náttúrunni og þeim skorðum sem hún setur. Á milli okkar og Litlu kaffistofunnar var mikill farartálmi sem nefndur er Svínahraunsbruni, mikill og úfinn hraunskafl, sem er ófær skíðafólki og reiðmönnum. Við urðum því að leita annarra leiða, fórum meðfram Blákolli og niður með Draugahlíðum, yfir eitthvað sem að kortum að dæma kallast Vífilfellsöxl og Ölduhorn þar til við komum inn á Lakheiði við Sandskeið. Þar gátum komist í göng sem liggja undir þjóðveginn og svo að Litlu kaffistofunni. Af myndum sem teknar voru við komuna virðist sú látlausa matstofa vera einn eftirsóknaverðasti áfangastaður veraldar. Þar inni fórum við yfir ferðina, átum flatkökur og létum líða úr okkur mestu þreytuna þar við tókum að ferja ökumenn að Bláfjöllum og svo til baka með öllum þeim flækjum sem heimferðir úr svona leiðöngrum útheimta. 

Við þurfum ekki alltaf að fara til útlanda til að njóta ævintýra eða finna einhverja paradís. Slíkir staðir geta svo vel leynst í nágrenninu, eða eins og Ingó veðurguð segir „þú keyrir þjóðveg eitt út úr Reykjavík og hálftíma seinna ertu í paradís.“

Langbrók